FINNUM ÞÍNA LEIÐ
Hugmyndafræðin mín
Ég vinn út frá þeirri hugmyndafræði að engir tveir kylfingar séu eins. Við höfum öll mismunandi líkamsbyggingu, hreyfigetu, styrkleika og takmarkanir – og því ætti kennslan að vera sniðin að hverjum og einum, en ekki mótuð eftir einni „réttri“ sveiflu.
Þegar ég kenni, horfi ég fyrst á hvað líkaminn þinn leyfir þér að gera á náttúrulegan hátt. Ég vinn með styrkleikana þína, hjálpa þér að bæta veikleikana og finn lausnir sem henta þér, frekar en að setja þig í fyrirfram ákveðið form.
Með þessu færðu sveiflu sem þú getur treyst, endurtekið og spilað með án þess að berjast gegn þínum náttúrulegu hreyfingum og þeim líkamlegu takmörkunum sem geta verið til staðar. Markmiðið er einfalt: að þú getir fundið góða höggstöðu á þínum eigin forsendum, og að þú lærir að leiðrétta þig sjálf/ur þegar eitthvað fer úrskeiðis.
Það er algengur misskilningur að golfsveifla þurfi að líta út á ákveðinn hátt til að hún sé árangursrík, eins og sést vel þegar sveiflur margra atvinnukylfinga eru bornar saman. Hér að neðan má til dæmis sjá mikinn mun á hvernig sveiflur tólf núverandi og fyrrum atvinnumanna líta út í efstu stöðu sveiflunnar. Þau eiga þó öll sameiginlegt að hafa komist í hóp bestu kylfinga heims.

Ef þú vilt lesa meira um kylfingana geturðu smellt á nöfnin þeirra hér á eftir. Kylfingarnir eru Calvin Peete, Ricky Fowler, Rory Mcilroy, Jon Rahm, John Daly, Jack Nicklaus, Dustin Johnson, Matthew Wolff, Nelly Korda, Scottie Scheffler, Matt Kuchar og Jim Furyk.

Æfðu við bestu aðstæður
Nesklúbburinn býr yfir einni bestu æfinga- og kennsluaðstöðu landsins, bæði úti og inni. Þú getur því bókað tíma í golfkennslu allan ársins hring, sama hvernig viðrar, við bestu mögulegu aðstæður.