Um Guðmund örn
Hæ!
Ég heiti Guðmundur, langoftast kallaður Gummi, og er íþróttafræðingur og golfkennari hjá Nesklúbbnum. Golf hefur verið mitt helsta áhugamál síðan ég var krakki og frá því ég byrjaði sjálfur að æfa og keppa hefur áhugi minn á íþróttinni sífellt aukist. Árið 2014 byrjaði ég í íþróttafræði í Háskólanum í Reykjavík, þar sem ég fékk tækifæri til að tengja fjölbreytt fög íþróttafræðinnar við golf og golfkennslu. Í náminu fékk ég mikinn áhuga á þjálfun kylfinga, sem hvatti mig til að fara í framhaldsnám í íþróttavísindum og sérhæfa mig í golfþjálfun. Ég kláraði M.Sc. gráðu í íþróttavísindum og þjálfun vorið 2019 og var námið styrkt af Golfsambandi Íslands. Á meðan náminu stóð sá ég m.a. um að gera reglulega hreyfigreiningar og kraftmælingar á íslenskum afreks- og atvinnukylfingum, kom að prógrammagerð fyrir þau og fékk tækifæri til að vinna náið með þáverandi landsliðsþjálfara Íslands í golfi. Ég er einnig með M.Ed gráðu í heilsuþjálfun og kennslu, sem gerir mér kleift að sameina vísindi, þjálfun og kennslu á árangursríkan hátt.
Betra golf byggt á þínum styrkleikum
Síðustu ár hef ég leitað mér frekari sérþekkingar í golfkennslu. Ég er í dag PGA golfkennaranemi og útskrifast sem PGA golfkennari í júní 2025. Ég er með level 1 réttindi frá Titleist performance institute (TPI) og level 2 réttindi frá Trackman, sem hjálpar mér að nýta nýjustu tækni í golfkennslu á sem bestan hátt fyrir alla kylfinga.
Ég legg áherslu á að vinna með styrkleika hvers og eins og mæta hverjum einstaklingi þar sem hann er staddur, hvort sem um ræðir byrjendur eða lengra komna kylfinga. Við erum öll ólík, höfum t.d. mismunandi markmið, líkamlega eiginleika og tíma til að æfa, svo eitthvað sé nefnt. Það skiptir mig því miklu máli að setja ekki alla í sama box og finna mismunandi leiðir fyrir hvern og einn sem skila raunverulegum framförum.
Þrátt fyrir að það skipti mig miklu máli að nemendur mínir nái að bæta sig þá finnst mér ekki síður mikilvægt að byggja upp sjálfstraust og leikgleði hjá þeim sem koma til mín í kennslu. Ég legg mikið upp úr því að skapa jákvæða upplifun og gera golfið einfalt, aðgengilegt og skemmtilegt fyrir alla. Partur af því er að útskýra flókin atriði á eins einfaldan hátt og hægt er, þannig þau verði auðskiljanleg og gagnleg í framkvæmd.
Hvort sem þú ert byrjandi sem vilt læra grunnatriðin eða lengra kominn kylfingur sem vill fínstilla leikinn, þá tek ég vel á móti þér og við finnum við leiðir sem henta þér!
Æfðu við bestu aðstæður
Nesklúbburinn býr yfir einni bestu æfinga- og kennsluaðstöðu landsins, bæði úti og inni. Þú getur því bókað tíma í golfkennslu allan ársins hring, sama hvernig viðrar, við bestu mögulegu aðstæður.